Selfoss og Afturelding gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn var heilt yfir bragðdaufur, Selfoss fór vel af stað fyrstu tíu mínúturnar en Afturelding var nær því að skora í upphafi leiks. Á 9. mínútu björguðu Selfyssingar á línu eftir slæm varnarmistök en Selfossvörnin virtist nokkuð óörugg í upphafi leiks.
Á 15. mínútu dró svo til tíðinda hinu megin á vellinum. Selfoss fékk aukaspyrnu vel fyrir utan vítateig Aftureldingar , Erna Guðjónsdóttir lét vaða að marki með glæsilegu skoti og boltinn söng í netinu.
Selfoss náði ekki að láta kné fylgja kviði, Afturelding hélt boltanum ágætlega og hafði undirtökin á miðjunni. Á 23. mínútu slapp Stefanía Valdimarsdóttir innfyrir Selfossvörnina en Alexa Gaul varði auðveldlega slakt skot frá henni. Tveimur mínútum síðar slapp Guðmunda Óladóttir hægra megin í vítateig gestanna og náði ágætu skoti að marki en Mist Elíasdóttir, markvörður Aftureldingar, náði að teygja stórutána í boltann og bjarga í horn.
Afturelding jafnaði metin á 33. mínútu með góðu marki. Sigríður Þóra Birgisdóttir fór þá illa með varnarmenn Selfoss, sendi boltann fyrir markið þar sem hann barst til Helen Linskey. Hún smellhitti boltann og Gaul fékk ekki við neitt ráðið, 1-1.
Þannig stóðu leikar í hálfleik en síðari hálfleikurinn var með því bragðdaufasta sem sést hefur á Selfossi í sumar og heimakonur langt frá sínu besta. Afturelding sótti meira en hvorugt liðið náði að skapa sér góð færi. Gestirnir áttu skot í hliðarnetið á 77. mínútu og fleira var ekki í fréttum.
Með sigri hefði Selfoss komist upp í 3. sæti deildarinnar en þær sitja nú í fjórða sæti með 20 stig. Afturelding er hinsvegar í næstneðsta sæti með 7 stig.