Bragðdauft gegn botnliðinu

Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði fyrir botnliði Aftureldingar í Bestu deildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur á Selfossvelli urðu 0-1.

Það var ekkert að frétta í fyrri hálfleik, fyrr en á 31. mínútu að Afturelding átti sjaldséða sókn og Jade Gentile lyfti boltanum laglega yfir Tiffany Sornpao í marki Selfoss.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Selfyssingar mættu mun hressari inn í seinni hálfleikinn. Þær sóttu án afláts en vörn gestanna hélt, auk þess sem Eva Ýr Helgadóttir átti góðan leik í marki Aftureldingar.

Á 67. mínútu fékk Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir að líta rauða spjaldið, eftir að hafa brotið af sér sem aftasti varnarmaður. Manni færri héldu Selfyssingar áfram að sækja en leikurinn opnaðist nokkuð og Afturelding átti hættulegar skyndisóknir.

Jöfnunarmarkið kom ekki og Selfoss hefur nú tapað þremur leikjum í röð og ekki náð að skora mark í 303 mínútur. Liðið er í 6. sæti með 14 stig. Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir EM-hléið í deildarkeppninni en næsti leikur liðsins í Bestu deildinni er þann 4. ágúst á heimavelli gegn ÍBV.

Fyrri greinGrímuskylda aftur tekin upp á HSU
Næsta greinJónsmessuhátíðin um næstu helgi