Nýjir sigurvegarar voru krýndir í KIA Gullhringnum í gær á Laugarvatni og brautarmetið féll í karlaflokki.
Sam Gateman frá Hollandi, keppnisliði Sensa, sigraði á tímanum 2:28,51 klst sem er 10 mínútum betri tími en fyrra brautarmet. Elín Björg Björnsdóttir, keppnisliði Airport Direct, sigraði í kvennaflokki á tímanum 2:53,35 klst.
Þá vakti sérstaka athygli að norskur afrekshjólreiðamaður Ole Bjorn Smisethjell sem var á ferðalagi um Ísland þessa vikuna ákvað að skella sér í Silfurhringinn á fjallahjóli og gerði sér lítið fyrir og sigraði flokkinn hjá körlum. Ekki er hægt að miða tímana þar við fyrri ár þar sem keppt var í annarri braut en síðustu 8 ár. Margrét Pálsdóttir í keppnisliði Hálfsystra sigraði kvennaflokkinn.
Þá voru það Guðmundur Arason Öfjörð og Þóra Katrín Gunnarsdóttir sem sigruðu Bronshringinn í ár og þá var í fyrsta sinn keppt í flokki rafmagnshjóla en sigurvegarar þar voru þau Freyr Hákonarson og Helga Guðrún Elvarsdóttir og ljóst að sá hópur mun fara vaxandi komandi ár.
Vel heppnað í alla staði
Mótið var vel heppnað í alla staði að mati skipuleggjenda en keppnin hefur verið haldin síðan 2012. Það viðraði vel á keppendur milt veður og lítill ef nokkur vindur. Mikið var um vegaframkvæmdir á svæðinu og einhverjar þeirra ekki komnar eins langt og gert var ráð fyrir í vetur þegar dagsetning keppninnar var ákveðin. Breyta þurfti leiðinni í Silfurhringnum þetta árið með sólarhrings fyrirvara í samráði við þjóðgarðsvörð Þingvalla, Vegagerðina, lögreglu og viðbragðsaðila og er þeim öllum þakkað fyrir frábært samstarf við keppnina.
„Við viljum þakka vegfarendum í uppsveitunum fyrir sýndan velvilja og þolinmæði. Laugvetningum og rekstaraðilum hér fyrir frábærar móttökur enn eitt árið og öllum sjálfboðaliðunum sem gera þetta að veruleika með okkur,“ segir Þórir Erlingsson, mótstjóri.
„Keppendur hjóluðu brautina af yfirveguðu öryggi en um leið af fullum krafti og það var tekið eftir því af dómurum og brautargæslufólki hversu mikinn keppnisþroska keppendur sýndu. Það er auðvitað mikill þáttur í öryggi keppenda, rýmið og tillitsemi sem þeir sýna hver öðrum,” bætti Þórir við.
Einstakur dagur á Laugarvatni
Þórir segir að keppnisbragurinn og veðrið hafi gert viðburðinn að einstökum degi á Laugarvatni.
„Við áttum svo innilega fallegan dag hér í gær og það voru ekki bara sigurvegararnir sem áttu frábæran dag heldur líka allir þeir sem unnu sína persónulegu sigra. Ungir og aldnir keppendur af öllum styrkleikaflokkum hjóluðu hérna skælbrosandi í mark og nutu dagsins alveg í botn. Svo busluðu allir í Fontana og við grilluðum ofan í alla og við áttum bara alveg frábæran dag og kvöld hérna,” sagði Þórir en mótið er orðið einskonar fjölskylduskemmtun í hugum hjólreiðafólks.
Það er Askja, KIA á Íslandi sem er aðalkostandi keppninnar en það samstarf gerir keppnina mögulega á hverju ári. „Það er ómetanlegt að hafa svona samstarfsaðila með sér í svona verkefni og við erum þeim einlæglega þakklát,“ sagði Þórir að lokum.