Bríet, Eva Lind og Kristrún semja við Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss gerði á dögunum tveggja ára samninga við þrjá öfluga leikmenn, Bríeti Mörk Ómarsdóttur, Evu Lind Elíasdóttur og Kristrúnu Rut Antonsdóttur.

Allar hafa þær leikið með Selfossliðinu á undanförnum árum, Bríet er miðvörður og leikjahæst þremenninganna með 46 deildarleiki fyrir Selfoss, sóknarmaðurinn Eva Lind hefur leikið 41 deildarleik fyrir Selfoss og skorað í þeim tíu mörk og Kristrún Rut, sem er varnarmaður, hefur leikið 27 deildarleiki fyrir félagið.

„Ég er mjög ánægður með að þessir leikmenn ætli sér að vera áfram á Selfossi. Þær hafa allar verið í knattspyrnuakademíunni og eru ungir leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Ég á von á því að þær verði lykilleikmenn Selfoss á næstu tímabilum,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfossliðsins, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinKveikt í bíl við Lambafellshnúk
Næsta greinÞrjátíu daga fangelsi fyrir innbrot og þjófnað úr sumarhúsum