Brockway farin heim

Varnarmaðurinn Tiana Brockway hefur kvatt liðsfélaga sína í Pepsi-deildarliði Selfoss í knattspyrnu og haldið heim til Bandaríkjanna.

Brockway lék sinn síðasta leik þegar Selfoss tók á móti Val í lokaleik fyrri umferðarinnar í byrjun mánaðarins.

„Við lögðum upp með það fá hana í fyrri hluta tímabilsins til þess að hjálpa okkur móta liðið og kenna ungu stelpunum að spila vörn. Núna klára þær þetta,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Það stendur ekki til að fá erlendan leikmann í stað hennar. Það er hugsanlegt að við fáum einn eða tvo leikmenn að láni þegar félagaskiptaglugginn opnar en það er þá bara til þess að stækka hópinn og setja pressu á ákveðnar stöður innan liðsins,“ sagði Gunnar ennfremur en félagaskiptaglugginn opnar þann 15. júlí.

Gunnar er ánægður með fyrri hluta mótsins og viðurkennir að liðið hafi farið framúr væntingum sínum hvað varðar stigasöfnunina en Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 13 stig.

„Við náðum markmiðum okkar, bæði varðandi hugarfar, taktík og stigafjölda. Við getum tekið mjög mikið af jákvæðum punktum út úr tímabilinu til þessa og við höldum svo áfram að vinna með það.“

Fyrri greinÁrborg styrkir Fischersetrið
Næsta greinGaf Fischersetrinu portrettmyndir