Hrunamennirnir Aron Ernir Ragnarsson og Eyþór Orri Árnason og Þórsararnir Ísak Júlíus Perdue og Styrmir Snær Þrastarson eru nýkomnir heim frá Kisakallio í Finnlandi. Þar fór fram árlegt Norðurlandamót U16 og U18 ára landsliða karla og kvenna í körfuknattleik.
Sunnlensku körfuboltakapparnir voru í eldlínunni með sínum liðum og lönduðu lið þeirra bronsi eftir harða baráttu við hinar Norðurlandaþjóðarnir auk Eistlands sem komið hefur sterkt inn í mótið á síðastliðnum árum.
Strákarnir fá nú stuttan tíma til þess að safna kröftum fyrir Evrópumót sem fram fara síðar í sumar. U18 ára liðið með Styrmi Snæ innanborðs leikur í Oradea í Rúmeníu 26. júlí til 4. ágúst. Í kjölfarið heldur U16 ára liðið til Podgorica í Svartfjallalandi þar sem þeir Aron Ernir, Eyþór Orri og Ísak Júlíus munu leggja sitt á vogarskálarnar fyrir Íslands hönd.
Sannarlega glæsilegir fulltrúar körfuboltans á Suðurlandi þarna á ferð.