Bronsverðlaunahafar heiðraðir

Fimleikadeild Umf. Selfoss heiðraði í morgun blandað lið Selfoss sem náði bronsverðlaunum á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum á dögunum.

Liðið var boðað til athafnar í íþróttahúsinu Baulu í morgun þar sem flutt voru ávörp og þeim færður viðurkenningarvottur. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, afhenti krökkunum og þjálfurum þeirra bíómiða frá sveitarfélaginu og stjórn fimleikadeildarinnar afhenti þeim gjafabréf í spa og út að borða á Hótel Selfossi.

Kjartan Björnsson tók til máls fyrir hönd íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, færði þeim hamingjuóskir frá nefndinni en sveitarfélagið mun heiðra liðið í lok árs á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar.

Blandað lið Selfoss hefur verið á mikilli uppleið í vetur og árangur þeirra á Norðurlandamótinu var uppskera mikillar vinnu og er óhætt að segja að liðið hafi toppað á réttum tíma en það bætti árangur sinn og fékk einkunnina 48,133.

Um helgina tekur blandaða liðið þátt í Íslandsmótinu í hópfimleikum ásamt tveimur öðrum liðum frá Selfossi.


Blandað lið Selfoss sem náði bronsverðlaunum á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum á dögunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinFjör í frjálsíþróttamessu
Næsta greinStrákarnir okkar: Viðar með bikarþrennu