Bryndís Ólafsdóttir, kraftakona á Selfossi, varð í fimmta sæti í keppninni um Sterkustu konu heims sem fram fór í Finnlandi um helgina.
Ellefu konur tóku þátt í keppninni sem samanstóð af sjö keppnisgreinum. Kristin Danielson Rhodes frá Bandaríkjunum sigraði nokkuð örugglega í keppninni með 15 stig en hörð keppni var um næstu fimm sæti þar á eftir.
Bryndís sigraði í einni keppnisgreininni og lenti tvisvar í 2. sæti og hafnaði að lokum í fimmta sæti með 36 stig.
Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk kona tekur þátt í keppni sem þessari.