Hamar varð fyrsta liðið til þess að vinna topplið GG í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í sumar og tryggðu Hvergerðingar sér um leið sæti í úrslitakeppni deildarinnar.
Liðin mættust í Grindavík í lokaumferð riðilsins og var leikurinn markalaus þangað til á lokamínútu fyrri hálfleiks að Brynjólfur Þór Eyþórsson kom boltanum í netið. Grindvíkingar jöfnuðu metin á 70. mínútu en þremur mínútum síðar skoraði Brynjólfur sigurmarkið og skaut Hvergerðingum í úrslitakeppnina.
Hamar varð að vinna leikinn í kvöld því Berserkir, sem urðu í 3. sæti riðilsins, unnu stórsigur á Stokkseyri, 6-1. Berserkir urðu því einu stigi á eftir Hamarsmönnum. Örvar Hugason skoraði mark Stokkseyringa í kvöld úr vítaspyrnu.
Árborg missti endanlega af sæti í úrslitakeppninni í kvöld þegar liðið tapaði 4-3 gegn toppliði Bjarnarins. Árborg verður því að gera sér þriðja sætið í A-riðlinum að góðu. Guðmundur Garðar Sigfússon, Árni Páll Hafþórsson og Gunnar Fannberg Jónasson skoruðu mörk Árborgar.
Ægir og Hamar eru fulltrúar Suðurlands í úrslitakeppni 4. deildarinnar sem hefst þann 30. ágúst. Ægir mun leika gegn Ými í 8-liða úrslitum en það skýrist um helgina hvort Hamar mæti Snæfelli, Kormáki/Hvöt eða Hvíta riddaranum.