Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur boðið upp landsliðstreyjuna sem hún klæddist í sínum 100. landsleik fyrir skömmu. Ágóðinn af uppboðinu rennur til ungrar stúlku sem greindist með krabbamein í sumar.
Nú eru fjórir dagar eftir af uppboðinu og hæsta boð sem stendur er 300.000 krónur.
Hólmfríður skorar á fyrirtæki að bjóða í treyjuna, sem er árituð af öllum leikmönnum kvennalandsliðsins. Allur ágóði mun renna til fjölskyldu Kolfinnu Ránar, en hún er dóttir Olgu Færseth og Pálínu Guðrúnar Bragadóttur.
„Kolfinna Rán er tæplega þriggja ára gömul framtíðar fótboltastelpa sem greindist með krabbamein í júní nú í sumar. Ég hef leikið knattspyrnu með bæði Olgu og Pálu en Olga var mín fyrirmynd í knattspyrnunni þegar ég byrjaði að spila og við náðum að spila saman í tveimur félagsliðum og íslenska landsliðinu,“ segir Hólmfríður. „Þær Olga og Pála hafa ávallt verið til staðar fyrir mig og nú vil ég vera til staðar fyrir þær. Báðar hafa þær verið frá vinnu vegna verkefnisins sem fjölskyldan glímir nú við og því vil ég leggja mitt af mörkum til að styrkja þær.“
Ásamt treyjunni ætlar Stefán Hilmarsson að gefa tvo miða á jólatónleikana sem fara fram í Silfurbergi Hörpu þann 16. desember.
Hægt er að bjóða í treyjuna með því að senda Hólmfríði tölvupóst á netfangið fridamagg84@gmail.com (Nafnleynd lofað ef óskað er). Uppboðinu lýkur þann 1. desember næstkomandi kl. 18:00.
Þeir sem vilja styrkja Kolfinnu Rán og fjölskyldu geta lagt inn á reikning 0545-14-406567, kt. 190113-2210.