Markvörðurinn Caitlyn Clem skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Clem gekk til liðs við Selfoss í vor og hefur staðið sig vel á milli stanganna og átt stóran þátt í því að Selfoss hélt sæti sínu í Pepsideildinni.
Hún hefur verið einn öflugasti markvörður Pepsideildarinnar í sumar og spilað sextán af sautján leikjum Selfoss í deildinni. Clem hefur varið að meðaltali 4,1 skot í leik en andstæðingar Selfoss hafa átt 5 skot á rammann að meðaltali í sumar.
„Við erum mjög ánægð með að Clem hafi framlengt samning sinn. Hún hefur staðið sig vel bæði innan vallar og utan og unnið sín störf af fagmennsku. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda henni, til þess að byggja ofan á þann góða grunn sem við lögðum í sumar. Hún hefur einnig aðstoðað við þjálfun í yngri flokkum og gefið mikið af sér þar enda er hún góð fyrirmynd og mikill íþróttamaður,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.
Sjálf segist Clem vera virkilega spennt fyrir komandi tímum á Selfossi.
„Ég hef öðlast góða reynslu hér á Íslandi í sumar og mér líður eins og heima hér á Selfossi. Að vera hér hefur ekki aðeins hjálpað mér að vaxa sem leikmaður heldur líka sem einstaklingur. Ég hlakka mikið til næsta tímabils. Það hefur verið stígandi í leik okkar í sumar og það verður spennandi að halda því áfram á næsta ári,“ segir Caitlyn Clem.