Í dag var undirrituð viljayfirlýsing flutningafyrirtækisins Cargow Thorship og Sveitarfélagsins Ölfuss, með samþykki Hafnarstjórnar Þorlákshafnar, um frekari uppbyggingu á hafnarsvæðinu og áætlunarsiglingar Cargow Thorship til Þorlákshafnar sem hefjast munu síðar á árinu.
Með samkomulaginu skuldbindur sveitarfélagið sig til þess að skapa við höfnina fyrsta flokks aðstöðu fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu. Cargow Thorship skuldbindur sig til þess að nota aðstöðuna sem meginhöfn á Íslandi á nýjum siglingarleiðum sínum á milli Íslands og meginlands Evrópu. Ný og aukin siglingaáætlun verður kynnt á komandi mánuðum.
Í tilkynningu frá Ölfusi segir að markmið sveitarfélagsins með þessu samkomulagi sé að efla Þorlákshöfn enn frekar sem vöruflutningahöfn fyrir sjóflutninga til og frá landinu. Á því sviði telur sveitarfélagið sig sérstaklega vel í sveit sett.
Cargow Thorship hefur sinnt áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun í u.þ.b. sautján ár. Félagið hefur vaxið hratt í gegnum árin og að undanförnu hefur ýmsum möguleikum til umfangsmikillar frekari stækkunar verið velt upp. Niðurstaðan varð sú að gera Þorlákshöfn að þungamiðju flutningastarfseminnar, bæði vegna hagstæðrar staðstetningar og möguleika á áframhaldandi vexti þegar til lengri tíma er litið.
Tryggir enn betur hlutverk hafnarinnar í blómlegu atvinnulífi Suðurlands
„Hér í Ölfusi vinnum við út frá þeim forsendum að verðmætasköpun sé forsenda velferðar. Þetta samkomulag er næsta rökrétta skrefið í uppbyggingu hafnarþjónustu í Þorlákshöfn og með þessu erum við að tryggja enn betur hlutverk hafnarinnar sem lykilþáttar í blómlegu atvinnulífi hér á Suðurlandi. Aukin starfsemi hafnarinnar hefur ætíð verið beintengd við vöxt og velferð samfélagsins hér í Þorláskhöfn og því er frábært að fá þetta trausta fyrirtæki Cargow Thorship til þess að hefja áætlunarsiglingar af þessari stærðargráðu hingað. Ég er viss um að samstarfið verður farsælt og efast ekki um að félagið muni festa enn frekari rætur í sveitarfélaginu á komandi árum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Stefán Héðinn Stefánsson, forstjóri Cargow Thorship, tekur undir þetta og segir að félagið hafi sett stefnuna á verulega stækkun starfseminnar. „Við undirstrikum þann ásetning með því að gera Þorlákshöfn að okkar meginhöfn í gámaflutningum á Íslandi. Siglingaleiðin þangað er styttri en inn til Reykjavíkur og samgöngur til og frá höfninni eru góðar. Samkomulagið er stórt skref í uppbyggingu og þróun félagsins og væntum við góðs ávinnings af því fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Stefán Héðinn.