Eloy Doce Chambrelan er nýr aðalþjálfari Körfuknattleiksfélags FSU. Hann er 46 ára gamall Spánveri sem hefur aflað sér mikillar reynslu sem þjálfari á flestum stigum undanfarin 20 ár.
Hann var aðalþjálfari í LEB deildinni á Spáni (næst efsta deild) sem er talin ein af sterkustu deildum í Evrópu. Hann hefur verið í þjálfarateymi yngri landsliða Spánar á Evrópumótum og heimsmeistaramótum. Einnig hefur hann þjálfað í spænsku kvennadeildinni.
Chambrelan er FIBA þjálfari og með hæstu þjálfaragráðu á Spáni og hann hefur þjálfað víðar en í heimalandinu, m.a. í efstu deildum í Urugvæ og Noregi. Hann hefur einnig farið víða um Evrópu sem fyrirlesari og þjálfari við körfuboltabúðir fyrir öll stig, allt frá byrjendum til atvinnumanna.
Chambrelan hefur sérhæft sig í kennslu tækni og leikfræði og að hjálpa leikmönnum að þróa hæfileika sína og getu. Þessir eiginleikar, ásamt yfirgripsmikilli reynslu hans af vinnu með ungum leikmönnum og af þjálfun á hæsta getustigi eru hvalreki fyrir FSU, fyrir körfuboltaakademíuna, yngriflokkastarfið og keppnislið félagsins.
Í tilkynningu frá félaginu segir að stjórnin sé hæstánægð með nýja þjálfarann og bíður spennt eftir að hann hefji störf.