Markvörðurinn Chanté Sandiford hefur tekið hanskana af hillunni og gert eins árs samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Chanté er Selfyssingum kunnug en hún varði mark liðsins í þrjú tímabil árin 2015-2017 og var um tíma fyrirliði liðsins. Þaðan gekk hún til liðs við Avaldsnes í Noregi og hefur síðan þá leikið með Haukum og Stjörnunni á Íslandi. Eftir tímabilið 2022 gerðist Chante aðstoðarþjálfari kvennaliðs Grindavíkur.
Hún á að baki 18 leiki fyrir landslið Guyana, er fyrirliði liðsins, og hefur spilað fyrir landið síðustu ár þó svo að hanskarnir hafi verið á hillunni á Íslandi. Hún er að auki markmannsþjálfari U20 ára landslið Guyana.
„Ég er mjög spennt að koma til baka og spila með Selfoss,“ sagði Chanté við undirskriftina.
„Það var bara ein manneskja sem gat sannfært mig um að byrja aftur í fótbolta og það er Gunnar Borgþórsson. Tímabilið 2015 var mitt langbesta tímabil á Íslandi og mögulega á mínum atvinnumannaferli og ég á Gunna mikið að þakka. Hann hefur mikla ástríðu fyrir þessu og vill koma liðinu aftur á toppinn og ég er spennt fyrir því að hjálpa liðinu þangað.“