Bardagalistakonan Chloe Bruce er með æfingabúðir og sýningu ásamt Grace systur sinni í Iðu á Selfossi í dag.
Fjöldi taekwondofólks í Umf. Selfoss æfði í dag undir stjórn Chloe og um miðjan daginn hélt hún sýningu fyrir almenning. Síðdegis var svo æfingum haldið áfram í fimleikum, parkour og tricking.
Þær systur koma hingað til lands fyrir tilstilli Taekwondosambands Íslands en samskonar dagskrá verður í Reykjavík á morgun.
Chloe Bruce hefur á undanförnum árum getið sér gott orð í keppni og sýningum á formum í bardagalistum. Hún er áhættuleikari í Hollywood og hefur leikið í fjölmörgum auglýsingum um allan heim. Chloe hefur 4. gráðu svart belti í Tang Soo Do, sem er náskyld taekwondo. Þá er hún í heimsmetabók Guinness, með flest spörk á mínútu í höfuðhæð, 212 spörk.