Chris Woods í Hamar

Hamar hefur samið við Christopher Woods um að spila fyrir liðið í 1. deildinni á komandi tímabili. Woods spilaði með FSu í Domino's-deildinni á síðasta keppnistímabili.

Woods hefur leikið við góðan orðstír á Íslandi síðastliðin fjögur tímabil, bæði í 1. deild og efstu deild. Hann lék fyrst um sinn með Valsmönnum sem slógu Hamarsmenn út í einvígi um sæti í úrvalsdeild tímabilið 2013-14. Hann lék svo einnig með Valsmönnum árið eftir, en skipti svo yfir í Snæfell.

Með FSu skilaði hann 27,7 stigum að meðaltali og tók 11,5 fráköst. Á Íslandi er Woods að meðaltali með 25 stig, 13 fráköst og 26 framlagspunkta í þeim 89 leikjum sem hann hefur leikið.

Fyrsti leikur Woods verður gegn ÍA uppá Skaga næstkomandi sunnudag, en fyrsti heimaleikur Hamars er föstudaginn 14. október gegn Hetti.

Fyrri greinGísli Jón bauð lægst í leikskólabyggingu
Næsta grein„Bara konur“ í Listagjánni