Selfyssingurinn Moustapha Cissé fer til Noregs á morgun þar sem hann verður til reynslu hjá IK Start í norsku 1. deildinni í knattspyrnu.
Start er í framherjavandræðum en nái Cissé að heilla forráðamenn liðsins verður hann lánaður til norska félagsins út keppnistímabilið.
Sóknarmaðurinn gekk í raðir Selfoss fyrir upphaf Pepsi-deildarinnar í sumar og hefur komið við sögu í níu af þrettán deildarleikjum liðsins, án þess að ná að skora mark.
Start er á toppi norsku 1. deildarinnar og með liðinu leika m.a. þeir Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson. Samkvæmt Wikipediu er liðið þekkt fyrir svokallaðan Makríl-bolta og er spurning hvort að sá leikstíll henti Cissé betur en hann hefur engan veginn náð að heilla stuðningsmenn Selfoss í sumar.