Selfyssingar hafa samið við sóknarmanninn Mustapha Cissé um að leika með liðinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar.
Þetta var tilkynnt á kynningarkvöldi fyrir stuðningsmenn Selfoss í troðfullum Tryggvaskála í gærkvöldi.
Cissé er 21 árs gamall sóknarmaður og kemur frá Jeanne d’Arc Dakar sem leikur í efstu deild í Senegal. Fyrir tveimur árum lék hann með Løv-Ham í norsku 1. deildinni en meiddist þar og fór aftur til Senegal. Hann hefur leikið einn A-landsleik fyrir þjóð sína með liði sem skipað var leikmönnum sem spila með liðum í Senegal.
Cissé hefur verið til reynslu hjá Selfyssingum síðustu vikur og staðið sig vel. Hann skoraði t.a.m. eitt mark og lagði upp annað í æfingaleik gegn Leikni á dögunum.
Þá hafa Selfyssingar einnig gengið frá samningi við Abdoulaye Ndiaye sem kom til liðsins á dögunum, einnig frá Senegal. Ndiaye fékk leikheimild með Selfyssingum fyrr í mánuðinum og lék sinn fyrsta leik þegar liðið mætti KR í Lengjubikarnum.