Cristopher Caird hefur skrifað undir tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls og Erlendur Ágúst Stefánsson er kominn aftur heim frá Bandaríkjunum og genginn til liðs við Þór Þorlákshöfn.
Báðir hafa þeir leikið með FSu sem féll úr úrvalsdeildinni í vor en Erlendur Stefán lék með bandarísku háskólaliði í vetur.
„Það er mikil ánægja með það að fá Erlend Ágúst aftur heim. Hann var í tvö ár á Selfossi og svo í Bandaríkjunum í vetur og kemur reynslunni ríkari til baka. Hann er náttúrulega alinn upp í Þór og lokar skemmtilegri línu þar sem við erum með uppalda stráka frá árgang ´93 til ´98 sem eru þegar farnir að láta kveða að sér í meistaraflokki og það er ansi gott í ekki stærra samfélagi,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, í samtali við Karfan.is í dag.
Feykir greinir frá því að Cris Caird hafi skrifað undir tveggja ára samning við Tindastól. Cris lék 16 leiki fyrir FSu í vetur og lauk leiktíðinni með 19,4 stig að meðaltali í leik að viðbættum 7,4 fráköstum og 3,5 stoðsendingum. Hann var einnig 13. stigahæsti leikmaður deildarinnar.