Dagný Brynjarsdóttir og liðsfélagar hennar í Bayern München urðu í dag þýskir meistarar í knattspyrnu eftir dramatíska lokaumferð. Dagný verður ekki áfram í herbúðum Bayern.
„Stemmningin var mjög góð á vellinum í dag og gaman að upplifa þetta,“ segir Dagný í samtali við sunnlenska.is. Bayern lagði Essen 2-0 á heimavelli í lokaumferðinni en til þess að ná titlinum þurfti Bayern að treysta á að topplið Wolfsburg myndi tapa stigum. Það gekk eftir því Wolfsburg gerði 1-1 jafntefli við Frankfurt.
Dagný byrjaði leikinn í dag á varamannabekknum en hún kom inná þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.
Rangæingurinn verður ekki áfram í herbúðum Bayern og bíður spennt eftir nýjum tækifærum hjá nýju félagi.
„Það var ýmislegt hérna sem ég var ekki ánægð með og við skulum bara orða það þannig að ég get ekki beðið eftir að komast heim í frí. Ég er byrjuð í viðræðum við annað lið núna en það er ekkert orðið ljóst ennþá hvað verður,“ segir Dagný. Hún mun ekki spila á Íslandi í sumar en hún segir að nokkur lið hafi falast eftir kröftum hennar.
Bayern fékk 56 stig í toppsæti deildarinnar, Wolfsburg var með 55 stig í 2. sæti og Frankfurt með 53 stig í 3. sæti. Þetta er í annað sinn sem Bayern verður þýskur meistari í kvennaknattspyrnunni en það gerðist síðast árið 1976.