Rangæingurinn Dagný Brynjarsdóttir varð í gær háskólameistari í knattspyrnu í Bandaríkjunum með liði Florida State University. FSU sigraði Virginíuháskóla 1-0.
Lið FSu hefur átt ákaflega góðu gengi að fagna í vetur en liðið er þrefaldur meistari á tímabilinu og er Dagný fyrirliði liðsins. Skólinn sigraði einnig ACC-mótið og var raðað sem einum af fjórum bestu háskólaliðunum inn í úrslitakeppni NCAA um helgina.
Dagný spilaði allan leikinn gegn Virginíuskólanum í gær en sigurmarkið kom átta mínútum fyrir leikslok. Þetta er fyrsti NCAA titill FSU.
„Þetta var yndislegur dagur og ég hafði líka fólk frá Íslandi í stúkunni sem var frábært,“ sagði Dagný í samtali við Vísi en á úrslitaleiknum voru bæði faðir hennar, kærasti og tengdaforeldrar. Það er stutt á milli hjá Dagnýju sem er að útskrifast fyrir jólin.
„Lokaprófin byrja á mánudaginn en ég er heppin og fer ekki í fyrsta prófið fyrr en á þriðjudaginn. Það er þvílík keyrsla á okkur. Við förum bara beint í lokapróf og svo er útskrift á laugardaginn,“ segir Dagný.
„Ég kem heim milli jóla og nýárs en ég mun funda um það í vikunni hvað ég er að fara að gera í janúar. Ég veit ekkert hvað ég geri,“ segir Dagný sem ætlar að leita sér að liði nú þegar hún hefur klárað háskólanámið í Bandaríkjunum.
„Auðvitað fer fótboltinn eitthvert með mig og ég stefni á það að vinna einhverja aðra titla í Evrópu nú þegar ég er búinn að vinna í Bandaríkjunum,“ segir Dagný að lokum í viðtalinu sem sjá má á Vísi.