Selfyssingar sópuðu til sín verðlaunum og náðu í tvo Íslandsmeistaratitla í taekwondo þegar Íslandsmótið í bardaga var haldið í Heiðarskóla í Keflavík síðastliðinn laugardag.
Umf. Selfoss sendi níu keppendur til leiks og komust þeir allir á verðlaunapall.
Dagný María Pétursdóttir varð Íslandsmeistari í +67 kg senior flokki kvenna og var valin kvenkeppandi mótsins. Það fór raunar svo að Selfoss tók öll verðlaunin í +67 kg flokki kvenna því Þórunn Sturludóttir Schacht varð í 2. sæti og
Katla Mist Ólafsdóttir í 3. sæti.
Veigar Elí Ölversson varð Íslandsmeistari í -53 kg cadet flokki karla en hann sigraði liðsfélaga sinn, Úlf Darra Sigurðsson í úrslitum svo Úlfur hlaut silfrið.
Julia Sakowicz fékk silfurverðlaun í +63 kg junior flokki kvenna, Björn Jóel Björgvinsson fékk bronsverðlaun í +80 kg senior flokki karla og Loftur Guðmundsson fékk bronsverðlaun í -63 kg junior flokki karla. Þá fékk Arnar Breki Jónsson fékk bronsverðlaun í -73 kg junior flokki karla.
Lið Selfoss varð í 2. sæti í heildarstigakeppni mótsins á eftir Keflvíkingum.






