Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir frá Hellu skrifaði í morgun undir samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss og mun hún leika með Selfyssingum í Pepsi-deildinni í sumar.
Dagný hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu síðustu misseri en hún hefur leikið með Val frá árinu 2007 og yfir vetrartímann með Florida State Seminoles í bandaríska háskólaboltanum.
Þar hefur hún náð frábærum árangri en lið FSU komst í úrslitaleik efstu deildar háskólafótboltans í desember og átti Dagný stóran þátt í gengi liðsins. Í vetur var hún meðal annars valin í úrvalslið Atlantshafsdeildarinnar og er í hópi 31 leikmanns sem samtök knattspyrnuþjálfara í Bandaríkjunum hafa tilnefnt í kjöri um besta leikmann bandaríska háskólaboltans.
Dagný er 22 ára gamall miðjumaður, uppalin hjá KFR en hún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir KFR/Ægi árið 2006, fimmtán ára gömul og gekk árið eftir í raðir Vals þar sem hún hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari.
Nítján ára lék hún sinn fyrsta landsleik og hefur síðan leikið 36 A-landsleiki auk 27 landsleikja fyrir yngri landslið Íslands.