Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvívegis þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu kjöldró Slóvena á útivelli í undankeppni EM í kvöld, 0-6.
Dagný kom Íslandi yfir á 15. mínútu með frábæru marki og Harpa Þorsteinsdóttir bætti við öðru marki á 20. mínútu. Staðan var 0-2 í hálfleik.
Harpa, Margrét Lára Viðarsdóttir og Sandra Jessen bættu svo við mörkum fyrir Ísland í síðari hálfleik áður en Dagný skoraði síðasta mark leiksins á 86. mínútu.
Leikurinn var 100. landsleikur Hólmfríðar Magnúsdóttur en hún þurfti að fara meidd af velli á 30. mínútu. Hólmfríður hefur glímt við meiðsli á síðustu dögum og missti til dæmis af sigurleiknum gegn Makedóníu í síðustu viku.
Dagný lék hins vegar allan leikinn gegn Makedóníu og Guðmunda Brynja Óladóttir kom inná sem varamaður undir lokin. Guðmunda sat á bekknum allan tímann í kvöld í Slóveníu.
Að loknum þremur leikjum er Ísland í efsta sæti síns riðils með fullt hús stiga og markatöluna 12-0.
Næsti leikur Íslands í riðlinum er í apríl á næsta ári gegn Hvíta-Rússlandi.