Dagný skoraði í 100. landsleiknum

Dagný Brynjarsdóttir. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Rangæingurinn Dagný Brynjarsdóttir skoraði eitt af mörkum Íslands sem sigraði Hvíta-Rússland 5-0 í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu í dag.

Þetta var 100. landsleikur Dagnýjar og var hún heiðruð af Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ, fyrir leik, ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur, sem einnig lék sinn 100. landsleik.

Dagný var í stuði í leiknum og hún kom Íslandi í 1-0 með góðu skoti af stuttu færi á 14. mínútu leiksins. Þetta var 34. landsliðsmark Dagnýjar í 100 leikjum, en tólf aðrar landsliðskonur hafa náð 100 leikja markinu.

Sif Atladóttir, leikmaður Selfoss, var á sínum stað í byrjunarliðinu í dag en var skipt af velli á 67. mínútu.

Vegna innrásarinnar Rússa í Úkraínu fór leikurinn fram á hlutlausum velli, án áhorfenda, í Serbíu.

Með sigrinum tyllir Ísland sér á toppinn í sínum riðli með 12 stig, uppfyrir Holland sem er með 11 stig. Næsti leikur liðsins verður gegn Tékklandi á útivelli næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinDímon-Hekla HSK meistari í blaki kvenna
Næsta greinSelfoss aftur í deild þeirra bestu