Dagný Brynjarsdóttir skoraði þrennu í fyrri hálfleik þegar Ísland lagði Lettland 9-0 í undankeppni Evrópumeistaramóts kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag.
„Þetta var gaman. Ég held að ég hafi ekki skorað þrennu í leik síðan ég var í KFR,“ sagði Dagný hlæjandi í viðtali við Stöð2Sport eftir leik.
Ísland komst yfir eftir aðeins 26 sekúndur þegar Elín Metta Jensen skoraði eftir góða sókn. Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði í sínum fyrsta landsleik á 7. mínútu og þá var komið að Dagnýju sem skoraði þriðja og fjórða mark Íslands með þriggja mínútna millibili. Sveindís bætti fimmta markinu við á 32. mínútu og Dagný innsiglaði þrennuna svo á 40. mínútu með sjötta og síðasta marki Íslands í fyrri hálfleik.
Selfossskipting í leikhléi / Fyrsti A-landsleikur Barbáru
Bárbara Sól Gísladóttir spilaði sinn fyrsta A-landsleik í dag en hún kom inná í hálfleik fyrir Dagnýju. Barbára stóð sig mjög vel í leiknum og lét til sín taka í sóknarleik Íslands, en hún lagði upp tvö af þremur mörkum Íslands í seinni hálfleiknum.
Sjöunda mark Íslands var sjálfsmark Letta eftir fyrirgjöf Barbáru á 71. mínútu og á 87. mínútu sendi Barbára boltann aftur fyrir markið þar sem Alexandra Jóhannsdóttir mætti og stangaði boltann í netið. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir innsiglaði svo 9-0 sigur Íslands í uppbótartímanum.
Næsta verkefni Íslands er stórleikur gegn Svíþjóð á Laugardalsvellinum næsta þriðjudag.