Dagný Brynjarsdóttir er orðin næstmarkahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu frá upphafi. Hún skoraði mark Íslands í 1-1 jafntefli gegn Nýja-Sjálandi í vináttulandsleik í Tyrklandi í dag.
Markið kom á 28. mínútu leiksins með skalla eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur en Ný-Sjálendingar jöfnuðu metin nokkrum mínútum síðar og þar við sat.
Þar með hefur Dagný skorað 38 mörk í 112 landsleikjum fyrir Íslands hönd. Hún fór fram úr Hólmfríði Magnúsdóttur, sveitunga sínum úr Rangárvallasýslunni, en hún skoraði 37 mörk í 113 landsleikjum á árunum 2003 til 2020.
Margrét Lára Viðarsdóttir á markametið sem verður seint eða aldrei slegið en hún skoraði 79 mörk í 124 landsleikjum á árunum 2003 til 2019.