Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, bætti 32 ára gamalt HSK met í 300 metra hlaupi á Vormóti HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossi í kvöld.
Dagur Fannar sigraði í 300 m hlaupi karla á tímanum 36,06 sek og bætti þar með héraðsmet Friðriks Larsen, Umf. Selfoss, í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára. Gamla metið, 36,42 sek, setti Friðrik í Austurríki árið 1988.
Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Umf. Heklu, bætti eigið HSK met í 300 m hlaupi í flokki 16-17 ára, hljóp á 37,37 sek og bætti sig um rúmlega 1,1 sekúndu.
Sunnlendingar sóttu fjögur gullverðlaun til viðbótar í kvöld. Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í hástökki kvenna, stökk 1,70 m. Sebastian Þór Bjarnason, Umf. Selfoss, sigraði í kringlukasti pilta 16-17 ára með kast upp á 50,46 m og í sama flokki sigraði Hjalti Snær Helgason, Umf. Selfoss, í spjótkasti með 49,80 m kasti. Guðný Vala Björgvinsdóttir, Umf. Hrunamanna, sigraði síðan í spjótkasti stúlkna 16-17 ára, kastaði 33,77 m.
Þátttaka á Vormóti HSK var góð, tæplega 100 keppendur voru skráðir til leiks, og aðstæður til keppni voru ágætar.