Dagur kunni vel við sig á Selfossi

Dagur með sigurlaunin á mótinu. Ljósmynd/skak.is

Íslandsmótið í atskák fór fram í Bankanum vinnustofu á Selfossi síðastliðinn laugardag og var mótið í boði Mar Seafood Restaurant.

Dagur Ragnarsson virðist kunna vel við sig á Selfossi og náði sér í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki einstaklinga. Áður hafði Dagur komist í einvígi um titilinn fyrir tveimur árum.

Um 30 skákmenn mættu til leiks á köldum en hressandi blíðviðrisdegi í hressandi Suðurlandslofti. Titilhafarnir voru 11 talsins en einhverjir stórmeistarar þurftu frá að hverfa á síðustu stundu en þó voru þrír stórmeistarar mættir til leiks.

Eftir sex umferðir var toppbaráttan jöfn og spennandi en þá var gert matarhlé þar sem boðið var upp á pizzur frá Kaffi Krús. Þær gerðu útslagið fyrir Dag sem var orðinn einn efstur að loknum sjö umferðum og hann mætti svo Alexander Oliver Mai í úrslitaskák í lokaumferðinni.

Dagur var sleipari á svellinu í úrslitaskákinni, beitti nýmóðins afbrigði með 6.a3 í þekktri stöðu sem er annaðhvort gríðarlega menntað en mögulega smá snobbað. Dagur hafði plönin betur á hreinu og landaði aftur lykiltaktík á h6 reitnum. Alexander bauð jafntefli sem tryggði Degi Íslandsmeistaratitilinn og Dagur þáði boðið.

Ítarlega og stórskemmtilega umfjöllun um mótið má finna hérna og þar fá CAD, Mar Seafood Restaurant og Tómas Þoroddsson fá þakkir fyrir að gera þessu móti hátt undir höfði.

Fyrri greinÍbúafundur um fjárhagsáætlun Árborgar
Næsta greinJólastund í Skálholti í kvöld