„Dagur til að gleðjast og njóta“

Kvennalið Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Vikan er búin að vera mjög góð, það er góð stemning í hópnum og mikil tilhlökkun fyrir úrslitaleiknum. Auðvitað er spenningur í liðinu, annað væri óeðlilegt. En við reynum að halda honum í skefjum og undirbúum okkur undir leikinn eins og við erum vön að gera fyrir aðra leiki,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Selfoss mætir KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum kl. 17:00 á laugardag.

„Ég á von á skemmtilegum og opnum leik. Þetta eru lið sem hafa sýnt það í sumar að þau geta spilað góðan fótbolta, bæði í vörn og sókn og þetta verður spurning um það hvort liðið vill þetta meira. Við þurfum að losna við stressið á fyrstu mínútunum og svo sjáum við hvernig við förum uppúr því,“ bætti Alfreð við.

„Við verðum í það minnsta tilbúnar í baráttuna. Stelpurnar vita fyrir hvað við stöndum; dugnað, vilja, löngun og samheldni. Ég vona að Selfosshjartað muni slá sem hraðast og í takt innan vallar sem utan,“ segir Alfreð sem á von á góðum stuðningi úr stúkunni.

„Maður finnur að stemningin er að magnast og ég reikna með því að stuðningsmennirnir muni standa við bakið á okkur eins og áður. Ég vona að þeir hafi það í huga sem ég hef sagt við stelpurnar að þetta er dagur til að gleðjast og njóta og við ætlum að klára verkefnið öll saman,“ sagði Alfreð að lokum.

Upphitun við Hótel Selfoss
Það verður mikið um að vera á Selfossi fyrir leik en upphitun hefst við Hótel Selfoss kl. 13:00 þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist, Selfossvarning til sölu og fría andlitsmálningu. Ókeypis sætaferðir verða á leikinn í boði Guðmundar Tyrfingssonar og er brottför frá Hótel Selfossi kl. 15:00. Forsala aðgöngumiða er á tix.is.

Smelltu hér til að kaupa miða á leikinn

Fyrri greinMikilvæg stig í húsi
Næsta greinValur og ÍBV leika til úrslita