Bikarmeistarar Hamars í blaki karla hafa samið við þá Damian Sapor og Tomek Leik um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili.
Þeir eru báðir þekktar stærðir í Hamri en þeir léku með liðinu tímabilið 2021-2022 og unnu alla titla sem í boði voru með liðinu, Damian lék einnig með liðinu tímabilið 2020-2021.
„Það er mikil ánægja í herbúðum Hamars með að fá þessa leikmenn aftur til okkar. Þeir voru stór partur af velgengni Hamars þegar þeir léku síðast með liðinu. Við vitum hvað við erum að fá í þessum leikmönnum og þeir verða mjög mikilvægir innan sem utan vallar“ segir í tilkynningu frá Hamri.
Það er því ljóst að Hamarsmenn ætla sér stóra hluti á næsta tímabili en Damian og Tomek eiga að hjálpa liðinu að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn.