Árborg náði í stig í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Létti á heimavelli í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.
Það blés ekki byrlega í upphafi fyrir Árborg því Léttir komst í 0-2 á fyrstu fjórtán mínútum leiksins.
Staðan var 0-2 í hálfleik en strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks minnkaði Tómas Kjartansson muninn fyrir Árborg. Skömmu síðar fór vítaspyrna í súginn hjá Árborgurum en á 87. mínútu kom Daníel Ingi Birgisson til bjargar og hamraði inn jöfnunarmark.
Árborg er í 4. sæti C-riðils með 7 stig en stigið dugði Létti til að komast í toppsætið með 10 stig.