Dean Martin, þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.
„Ég er hæstánægður með það að vera búinn að skrifa undir nýjan samning við Selfoss. Mér finnst liðið og félagið vera á réttri leið og við höfum trú á þeirri vegferð sem við erum á,“ sagði Dean við undirskriftina.
Dean tók við Selfyssingum um mitt tímabil 2018 en það tímabil féll liðið niður í 2. deild. Síðan þá hefur liðið klifrað jafnt og þétt upp töfluna og eftir tvö ár í 2. deildinni hafa Selfyssingar leikið í Lengjudeildinni undanfarin tvö tímabil.
„Markmiðið er að bæta umhverfið og halda áfram að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri. Aðstaðan á Selfossi er til fyrirmyndar og við ætlum að nýta okkur hana til þess að gera liðið betra,“ segir Dean ennfremur.
Selfoss leikur sinn síðasta leik þetta sumarið á morgun þegar KV kemur í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og býður Bílasala Selfoss frítt á leikinn.