A-sveit Dímonar er á mikilli siglingu í 4. deild Íslandsmótsins í skák en fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram í Rimaskóla í Reykjavík fyrir skemmstu.
Íþróttafélagið Dímon á Hvolsvelli tekur nú þátt í þriðja sinn og sendi til leiks tvær sveitir í 4. deildina, sem báðar náðu frábærum árangri.
Dímon A er í 1. sæti eftir fyrri hlutann með 23 vinninga af 24 mögulegum og Dímon B er í 5. sæti með 14 vinninga af 24 mögulegum. Báðar sveitir eru því í góðri stöðu fyrir seinni hluta Íslandsmótsins sem haldið verður í apríl og verður spennandi að fylgjast með gangi mála. Telja má nánast öruggt nú þegar að Dímon A fari upp úr 4. deildinni eftir úrslit fyrri hlutans.
A-sveitina skipa þeir Magnús Pálmar Örnólfsson, Guðmundur Daðason, Stefán Arnalds, Árni Böðvarsson, Unnsteinn Sigurjónsson, Magnús Sigurjónsson og Óskar Víkingur Daðason.
B-sveitina skipa þeir Egill Steinar Ágústsson, Anton Vignir Guðjónsson, Brynjar Bjarkason, Baldur Hannesson, Þorlákur Ragnar Sveinsson, Markús Árni Vernharðsson, Birgir Logi Steinþórsson, Helgi Svanberg Jónsson, Óttar Örn Bergmann Sigfússon, Reynir Björgvinsson, Bjarni Daníelsson og Ólafur Elí Magnússon.