Héraðsmót HSK í borðtennis var haldið í íþróttahúsinu á Hvolsvelli síðastliðinn laugardag. Mótið var nú haldið í 46. sinn, en fyrsta héraðsmótið var haldið árið 1975.
Mótið hefur farið fram árlega síðan, þar til í fyrra, en þá þurfti að aflýsa mótinu vegna heimsfaraldurs.
Í ár mættu keppendur frá þremur félögum til leiks og vegna Covid fjöldatakmarkana var mótið tvískipt. Keppendur í flokkum 13 ára og yngri hófu keppni fyrir hádegi og 14 ára og eldri mættu kl. 14:00.
Á mótinu var keppt í einliðaleik í ellefu flokkum og veitt voru verðlaun í öllum flokkum. Keppendur frá Dímon unnu sjö HSK meistaratitla, Garpur vann þrjá titla og Selfoss einn titil.
Dímon vann stigakeppni félaga með 120 stig, Garpur varð í öðru sæti með 71,5 stig og Selfoss í þriðja með 14,5 stig.