Hamar og Ægir töpuðu leikjum sínum í 2. deild karla í kvöld. Hamar fékk Aftureldingu í heimsókn en Ægir sótti Reyni heim í Sandgerði.
Leikurinn í Hveragerði var í járnum í fyrri hálfleik, Afturelding var meira með boltann án þess að ná að skora, en bæði lið skoruðu reyndar mörk sem dæmd voru af.
Staðan var 0-0 í hálfleik en í síðari hálfleik voru gestirnir ráðandi aðilinn. Hamar fékk lítið annað en hálffæri á meðan sóknir Aftureldingar þyngdust verulega eftir því sem leið á leikinn.
Það var komið fram í uppbótartíma þegar hlutirnir fóru að gerast. Á 92. mínútu fékk Hamarsmaðurinn Gunnar Gunnarsson beint rautt spjald fyrir hættulegt brot en hann hafði komið inná sem varamaður tíu mínútum áður.
Á 94. mínútu sóttu gestirnir stíft að marki Hvergerðinga og varði Björn Aðalsteinsson tvívegis meistaralega auk þess sem félagi hans bjargaði á línu áður en boltanum var neglt í netið. Staðan orðin 0-1 og strax í næstu sókn heimtuðu Hvergerðingar vítaspyrnu þegar markvörður Aftureldingar fór hratt í Stefán Hafsteinsson en dómarinn flautaði ekki – fyrr en hann flautaði leikinn af nokkrum andartökum síðar.
Í Sandgerði komust heimamenn yfir um miðjan fyrri hálfleik og leiddu 1-0 í hálfleik. Þeir bættu við öðru marki strax í upphafi síðari hálfleiks en Ægismenn náðu ekki að klóra í bakkann fyrr en ofurvaramaðurinn Matthías Björnsson kom tuðrunni í netið í uppbótartíma og lokatölur urðu 2-1.
Ægir er í 7. sæti deildarinnar með 6 stig en Hamar í því 10. með 3 stig.