Dramatík á lokasekúndunum í Iðu

FSu fékk flautukörfu í andlitið í framlengingu og tapaði 90-91 þegar Fjölnir kom í heimsókn í Iðu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Fjölnismenn höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 34-43. FSu-liðið mætti hins vegar sprækt inn í seinni hálfleikinn og vann upp muninn hægt og bítandi. Það var þó ekki fyrr en hálf mínúta var eftir af leiknum að FSu komst yfir, 77-75. Fjölnir jafnaði hins vegar með tveimur vítaskotum þegar 21 sekúnda var eftir og tryggði sér framlengingu.

Framlengingin var æsispennandi en þegar fimm sekúndur voru eftir lagði Hilmir Ómarsson boltann í körfu Fjölnismanna og kom FSu í 90-88. Fjölnir náði hins vegar að nýta síðustu sekúndurnar og skoruðu þriggja stiga flautukörfu og tryggðu sér 90-91 sigur.

Terrence Motley var með frábært framlag í leiknum 45 stig og 20 fráköst. Hann hefur skorað 37,3 stig að meðaltali í leikjum vetrarins og tekið 13,9 fráköst að meðaltali.

Tölfræði FSu: Terrence Motley 45 stig/20 fráköst/6 stolnir, Ari Gylfason 18 stig, Orri Jónsson 12 stig/4 fráköst/5 stolnir, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 5 stig, Hilmir Ægir Ómarsson 5 stig/5 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 3 stig, Helgi Jónsson 2 stig/4 fráköst.

Fyrri grein„Laugaskarð býður upp á áhugaverð heilsudjömm“
Næsta greinPáll Magnússon: Takk fyrir!