Það voru heldur betur sveiflur í 2. deild karla í knattspyrnu í dag en Selfoss og Ægir töpuðu bæði leikjum sínum.
Það var heldur betur fjör á Selfossvelli í dag þar sem Völsungur var í heimsókn. Gonzalo Zamorano kom Selfossi yfir strax á 6. mínútu en á 19. mínútu syrti í álinn hjá Selfyssingum þegar Ívan Breki Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að sparka í mótherja.
Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 5. mínútu síðari hálfleiks jöfnuðu Völsungar og fjórum mínútum síðar varð Dagur Jósefsson fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan orðin 1-2. Selfyssingar voru ekki hættir og á 73. mínútu jafnaði Reynir Freyr Sveinsson metin með glæsilegri fyrirgjöf sem endaði í netinu. Fimm mínútum síðar var Reynir Freyr aftur á ferðinni og pressaði varnarmann Völsungs sem setti boltann í eigið net. Selfyssingar komnir í 3-2 manni færri.
Dramatíkin var ekki búin og á lokakaflanum lágu Völsungar stíft á Selfyssingum. Þeir náðu að jafna á 2. mínútu uppbótartímans og mínútu síðar lá boltinn aftur í netinu á Selfossmarkinu og Völsungur fagnaði 3-4 sigri.
Fimmta tap Ægis í röð
Ægir heimsótti KF á Ólafsfjörð en KF situr í fallsæti. Gestirnir skoruðu tvívegis með tveggja mínútna millibili á lokakafla fyrri hálfleiks og þar við sat. Lokatölur 2-0 og eftir fimm tapleiki í röð eru Ægismenn búnir að síga verulega niður töfluna.
Þrátt fyrir tapið eru Selfyssingar enn á toppnum með 29 stig en Ægismenn eru í 9. sæti með 15 stig.