Árborg tryggði sér jafntefli í blálokin gegn Tindastóli í kvöld og á sama tíma töpuðu Uppsveitir gegn Álftanesi og eru Uppsveitamenn því fallnir úr 4. deild karla í knattspyrnu.
Leikur Árborgar og Tindastóls fór mjög rólega af stað en eftir rúmar tuttugu mínútur skrúfuðu liðin upp hitann og Árborgarar fengu fín færi áður en David Toro kom Tindastól yfir á 42. mínútu eftir þunga sókn. Staðan var 0-1 í hálfleik og liðin skiptust á að sækja í seinni hálfleiknum áður en Toro skoraði aftur fyrir Stólana á 77. mínútu og staðan orðin 0-2.
Árborg lagði allt undir á lokakaflanum og nýtti leiktímann til hins ítrasta. Á 89. mínútu var brotið á Hrvoje Tokic innan vítateigs og hann fór sjálfur á punktinn og skoraði. Árborg hélt áfram að pressa og á fimmtu mínútu uppbótartímans hamraði Guðmundur Gígjar Sigurbjörnsson boltann í netið og jafnaði 2-2.
Uppsveitir heimsóttu Álftanes í kvöld en liðin eru í neðstu sætum deildarinnar. Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og Magnús Ársælsson og Kristófer Helgi Jóhannsson skoruðu sitthvort markið þannig að staðan var 2-0 í hálfleik. Leikurinn var fjörugur í seinni hálfleik en Uppsveitamönnum var fyrirmunað að skora þrátt fyrir þungar sóknir á köflum. Þeir reyndu allt hvað af tók að koma knettinum í netið en fengu tvö mörk í andlitið á lokakaflanum, Magnús skoraði aftur á 87. mínútu og Kristján Lýðsson innsiglaði 4-0 sigur heimamanna á 95. mínútu.
Úrslitin í kvöld þýða það að lið Uppsveita er fallið úr 4. deildinni, liðið er með 3 stig í botnsætinu þegar fjórar umferðir eru eftir. Árborg er enn í 2. sæti, nú með 28 stig.
Önnur úrslit í 14. umferð 4. deildarinnar:
Skallagrímur 1 – 2 Vængir Júpíters
0-1 Aron Heimisson (‘4)
1-1 Alejandro Serralvo (’38)
1-2 Aron Heimisson (‘44)