Lið Selfoss og Hamars eru komin í 32-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir æsispennandi leiki og dramatík í kvöld.
Selfoss, sem leikur í Inkasso-deildinni, fékk 2. deildarlið Gróttu í heimsókn á Selfossvöll. Selfyssingar byrjuðu betur og komust yfir á 13. mínútu með marki Stefáns Ragnars Guðlaugssonar. Selfoss virtist hafa nokkuð góð tök á leiknum en tíu mínútum síðar jafnaði Grótta metin og í kjölfarið efldust gestirnir nokkuð.
Það var ekki til bóta fyrir Selfoss að Magnús Ingi Einarsson fékk tvö gul spjöld með tveggja mínútna millibili og var því sendur í snemmbúið bað á 41. mínútu.
Staðan var 1-1 í leikhléi og seinni hálfleikur var markalaus. Selfyssingar létu liðsmuninn ekki á sig fá og sóttu meira en Grótta komst nær því að skora þegar þeir áttu skot í þverslána á lokamínútunni.
Því var gripið til framlengingar og þar var varamaðurinn Kristófer Páll Viðarsson fljótur að láta til sín taka því hann kom Selfyssingum yfir með frábæru marki strax á 3. mínútu framlengingar. Grótta sótti talsvert í kjölfarið og jafnaði metin á 104. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss. Fleiri urðu mörkin ekki í framlengingunni og þá tók við vítaspyrnukeppni.
Vítakeppnin var með hinu nýja ABBA fyrirkomulagi sem þýðir að Selfoss tók fyrstu spyrnuna en síðan skiptust liðin á um að taka tvær spyrnur í röð.
Gangur vítakeppninnar:
3-2 Stefán Ragnar Guðlaugsson skorar
3-3 Arnar Þór Helgason skorar fyrir Gróttu
3-3 Stefán Logi Magnússon ver
4-3 Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skorar
5-3 Kristófer Páll skorar
5-4 Dagur Guðjónsson skorar fyrir Gróttu
5-4 Stefán Logi ver aftur!
5-4 Jökull Hermannsson brennir af
6-4 Ingi Rafn Ingibergsson tryggir Selfyssingum endanlega sigurinn
Hamar vann aftur í uppbótartíma
Hamar sló Árborg úr keppni í 1. umferð með 1-0 sigurmarki í uppbótartíma og Hvergerðingar notuðu sömu uppskrift til þess að slá Létti úr leik í 2. umferðinni í kvöld. Leikur liðanna, sem bæði leika í 4. deild, var markalaus allt þar til á fjórðu mínútu uppbótartíma að Guðmundur Karl Þorkelsson tryggði Hamri sigurinn. Uppskrift sem virkar hjá lærisveinum Dusan Ivkovic og þeir verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslitin í hádeginu á mánudaginn.