Hamar og Fram skildu jöfn í hörkuleik í 2. deild kvenna í knattspyrnu á Grýluvelli í Hveragerði í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var markalaus allt þar til á 38. mínútu að Harpa Hlíf Guðjónsdóttir kom boltanum í netið eftir góða aukaspyrnu Sunnevu Sigurvinsdóttur.
Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 2. mínútu síðari hálfleiks náði Fram að jafna metin.
Liðin skiptumst á að sækja eftir þetta án þess að ná að skora, fyrr en á lokakaflanum, sem var mjög skrautlegur. Íris Sverrisdóttir kom Hamri í 2-1 á 88. mínútu og allt stefndi í sigur Hamars. Framarar fengu hins vegar vítaspyrnu þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar boltinn fór í höndina á varnarmanni Hamars og jöfnuðu 2-2 úr henni.
Mínútu síðar fékk Íris sitt annað gula spjald á fimm mínútum og þar með rautt, rétt áður en dómarinn flautaði til leiksloka.
Stigið dugði Hamri til þess að lyfta sér upp í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Fram er í botnsætinu með 2 stig.