Selfoss tapaði naumlega gegn FH í fyrsta leiknum í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Lokatölur í Kaplakrika í kvöld urðu 30-29.
Leikurinn var jafn fyrsta korterið en FH-ingar náðu þá þriggja marka forskoti, 10-7, eftir að Selfyssingar höfðu misst boltann trekk í trekk klaufalega í sókninni. Þetta sló Selfyssinga ekkert út af laginu, þeir jöfnuðu 12-12 en staðan var 15-13 í hálfleik.
FH byrjaði mun betur í seinni hálfleiknum og náði fjögurra marka forskoti en Selfoss gafst ekki upp og minnkaði muninn jafn harðan í 21-20. FH var yfir allan seinni hálfleikinn en Selfoss elti eins og skugginn.
Á lokakaflanum hafði FH þriggja marka forskot, 30-27, en þá komu tvö mörk í röð frá Selfyssingum og í þann mund sem leiktíminn rann út fengu Selfyssingar vítakast í stöðunni 30-29. Einar Sverrisson fór á punktinn en setti boltann í þverslána og FH fagnaði dramatískum sigri.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/2 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 4, Guðmundur Hólmar Helgason, Elvar Elí Hallgrímsson, Ísak Gústafsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Atli Ævar Ingólfsson og Karolis Stropus 2 og Ragnar Jóhannsson 1. Besti maður vallarins var Vilius Rasimas, markvörður Selfoss, sem varði 21/2 skot og var með 40% markvörslu. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 2 skot og var einnig með 40% markvörslu.
FH leiðir 1-0 í einvíginu en liðin mætast næst í Set-höllinni á þriðjudagskvöld kl. 19:40. Það lið sem vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit Íslandsmótsins.