Dramatískt fimmtudagskvöld í Gjánni

Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig og 22 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann dramatískan sigur á Skallagrími í 1. deild karla í körfubolta í framlengdum leik í Gjánni á Selfossi í kvöld.

Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur í leiknum, þeir komust í 4-16 í upphafi leiks og leiddu 11-25 í 2. leikhluta. Selfyssingar réttu úr kútnum í 2. leikhluta og staðan í leikhléi var 33-37, Skallagrími í vil.

Þriðji leikhlutinn var í járnum, Selfoss skoraði fyrstu fimm stigin og jafnaði 37-37 en eftir það var Skallagrímur skrefinu á undan. Selfoss byrjaði vel í síðasta fjórðungnum, gerði 15-2 áhlaup og komst yfir, 68-61.

Selfyssingar höfðu fjögurra stiga forystu þegar lokamínútan hófst, en þeim brást bogalistin á lokamínútunni og þegar tvær sekúndur voru eftir var Borgnesingum boðið á vítalínuna þar sem Hjalti Þorleifsson setti niður þrjú vítaskot og jafnaði 71-71.

Því þurfti að grípa til framlengingar og í henni voru Selfyssingar sterkari, þeir náðu fljótlega frumkvæðinu og héldu aftur af gestunum í blálokin. Lokatölur urðu 82-80.

Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en Skallagrímur í 7. sætinu með 6 stig.

Tölfræði Selfoss: Christian Cunningham 24/22 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 16/5 fráköst, Kristijan Vladovic 12/5 fráköst, Alexander Gager 9/5 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 8, Arnór Bjarki Ívarsson 6, Maciek Klimaszewski 4/8 fráköst, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 3.

Fyrri greinAppelsínugul viðvörun: Stórhríð og skafrenningur
Næsta greinHellisheiðin og Þrengsli lokuð – allt fast austan Þjórsár