Mílan og KR skildu jöfn, 27-27, þegar liðin mættust í 1. deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Leikurinn var hnífjafn nánast allan tímann.
Staðan var 8-8 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en í kjölfarið náði KR tveggja marka forskoti. Mílan jafnaði hins vegar fyrir hlé og staðan var 13-13 í hálfleik.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik hafði Mílan tveggja marka forskot sem liðið hélt allt fram á lokamínúturnar. KR náði að jafna 27-27 þegar 50 sekúndur voru eftir af leiknum en Mílan tókst ekki að nýta síðustu sókn sína. Heimamenn fengu aukakast um leið og leikklukkan rann út en boltinn fór í varnarvegginn.
Öxlin á Erni Þrastarsyni er greinilega að komast í lag því hann skoraði 14 mörk fyrir Mílan í kvöld og þar af skoraði hann 11 mörk í seinni hálfleik. Atli Kristinsson skoraði 7, Árni Felix Gíslason 3, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2 og Eyþór Jónsson 1.
Stefán Ármann Þórðarson varði 10 skot í marki Mílan og var með 32% markvörslu og Bogi Pétur Thorarensen varði 2/1 skot og var með 25% markvörslu.