Selfoss náði jafntefli gegn HK með síðasta skoti leiksins þegar liðin mættust í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld í Olísdeild kvenna í handbolta. Lokatölur urðu 27-27.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og náði mest þriggja marka forskoti en HK liðið var aldrei langt undan. Gestirnir svöruðu fyrir sig í seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléi 15-17.
HK-ingar voru sterkari framan af fyrri hálfleik og þegar tíu mínútur voru eftir leiddu þær með fimm mörkum. Selfyssingar voru hins vegar ekki hættir og náðu að jafna metin, 25-25, þegar fjórar mínútur voru eftir. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór á kostum á þessum kafla en hún skoraði sex mörk á síðustu tíu mínútum leiksins.
Selfoss komst marki yfir í kjölfarið en HK skoraði þá tvö mörk í röð og Selfoss hélt af stað í síðustu sókn leiksins. Þar hitti Hulda Dís Þrastardóttir heldur betur vel á það því hún negldi inn jöfnunarmarki þegar fjórar sekúndur voru eftir og þar við sat.
Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 11/5 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 6, Kristrún Steinþórsdóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir 2 og þær Þuríður Guðjónsdóttir, Hulda Dís og Sarah Boye Sörensen skoruðu allar 1 mark.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 8 skot í marki Selfoss og var með 25% markvörslu.
Olísdeild kvenna er nú komin í jólafrí en næsti leikur ekki fyrr en eftir áramót.