Dýrmæt stig til Þórsara

Þór Þorlákshöfn krækti í dýrmæt stig í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið sótti Keflavík heim. Þórsarar sigruðu 82-85.

Keflvíkingar byrjuðu betur í leiknum en Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og komust yfir. Staðan var 42-44 í leikhléi.

Keflavík skoraði fyrstu sex stigin í síðari hálfleik og komst yfir en þá kom góður kafli hjá Þór tók forystuna aftur eftir 4-17 áhlaup. Munurinn var þá orðinn níu stig, 52-61, og Þór hélt forystunni út fjórðunginn, 59-67.

Fjórði leikhluti var mjög spennandi. Þórsarar bættu við forystuna í upphafi, 59-72, en Keflvíkingar gáfust ekki upp og komust tveimur stigum yfir, 78-76, þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þórsarar héldu haus og voru sterkari á lokamínútunum. Tobin Carbery og Maciej Baginski voru öruggir á vítalínunni í lokin en Keflvíkingar fengu síðustu sókn leiksins og fengu tvær tilraunir til þess að jafna með þriggja stiga skoti en báðar fóru forgörðum.

Með sigrinum lyftu Þórsarar sér upp í 5. sæti deildarinnar með 14 stig, uppfyrir Keflavík sem hefur 12 stig.

Tölfræði Þórs: Maciej Baginski 26 stig, Tobin Carberry 16 stig/10 fráköst/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 13 stig, Ólafur Helgi Jónsson 11 stig/7 fráköst, Ragnar Örn Bragason 8 stig/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8 stig, Halldór Garðar Hermannsson 3 stig.

Fyrri greinKaritas og Eva Lind framlengja við Selfoss
Næsta greinFélag eldri borgara vill fresta lokun Kumbaravogs