„Við lentum átta eða tíu stigum undir og vorum ekki mættir með hörkuna. Það er oft sem þú nærð ekki að breyta hugarfarinu í miðjum leik en það tókst í kvöld og og þessi leikur var eiginlega okkar eftir það.“
Þetta sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, eftir góðan sigur Þórsara á ÍR í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Icelandic Glacial höllinni voru 100-76.
„Þetta byrjar allt í vörninni. Það eru dagar þar sem þú ert kaldur í sókn, en þú átt alltaf möguleika á því að vinna leikinn ef þú spilar vörn. Ef þú spilar góða vörn þá færðu auðveldari körfur hinu megin og við fengum fullt af þannig körfum í kvöld,“ sagði Benedikt ennfremur.
Leikjaplan liðanna í Domino’s-deildinni er þéttskipað á meðan Lengjubikarinn er í gangi en Benedikt segir leikmennina ekki kvarta undan álagi.
„Leikmenn vilja þetta, spila tvisvar í viku í stað þess að æfa sex sinnum í viku og spila einu sinni. Þetta er bara eins og þetta á að vera. Við viljum hafa tvo leiki á viku, þannig að menn verða bara að þola það. Það er ekkert leikjaálag, þetta er rétt að byrja,“ sagði Benedikt.
Ungu leikmennirnir hjá Þór fengu tækifæri í kvöld og það var mjög ungt lið sem káraði leikinn. Benedikt segir að þeir hafi margir hverjir verið duglegir.
„Emil [Karel Einarsson] er kannski búinn að vera duglegastur af ungu strákunum hérna og er að njóta góðs af því. Bæði búinn að bæta sig mest og búinn að ná sér í gott „good will“. Þannig að ég er að reyna að gera hann úrvalsdeildar hæfan. Hann er með hæfileikana í það, hann þarf bara að fá smá kjöt á sig til þess að geta verið stöðugur úrvalsdeildarleikmaður. Gegn sumum liðum hentar ágætlega að nota hann og gegn sumum liðum hentar illa að nota hann. Um leið og hann bætir á sig kjöti er hann klár í slaginn. Hann kom frábær af bekknum í dag,“ sagði Benedikt að lokum.