Kvennalið Selfoss náði í mikilvægt stig í Pepsideildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið sótti Grindavík heim. Þrjú stig hefðu þó verið sanngjarnari uppskera því þær vínrauðu voru mun sterkari aðilinn í rokinu í Grindavík.
„Ég vildi bara vinna þennan leik. Ef við hefðum fengið fimm mínútur í viðbót þá hefðum við klárað þetta. Auðvitað skiptir hvert stig máli fyrir okkur en eftir að við jöfnuðum fengum við mjög gott færi. Við erum með gott fótboltalið og það er búinn að vera góður stígandi í þessu hjá okkur leik eftir leik. Það er það sem við erum ánægð með,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Fyrri hálfleikur var markalaus en Selfyssingar sóttu með vindinn í bakið og gekk illa að skapa sér færi.
Grindvíkingar urðu hins vegar fyrri til að skora þegar Ísabel Almarsdóttir afgreiddi aukaspyrnu langt utan af velli í markið hjá Selfyssingum. Þær vínrauðu gáfust þó ekki upp heldur sóttu án afláts og Alexis Kiehl jafnaði metin með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu á 83. mínútu. Selfoss fékk fleiri dauðafæri á lokakaflanum en tókst ekki að tryggja sér stigin þrjú.
Selfoss hefur 4 stig í 6. sæti deildarinnar og Grindavík sömuleiðis 4 stig í 7. sætinu.