Minningarmót fimleikadeildar Umf. Selfoss um Magnús Arnar Garðarsson fór fram í íþróttahúsinu Iðu í gær, sunnudaginn 11. maí.
Iðkendur frá 1.bekk og uppúr tóku þátt og sýndu listir sínar fyrir foreldra og dómara. Í lokin fengu allir viðurkenningarpening og í lok seinni hluta voru hefðbundnar verðlaunaafhendingar deildarinnar.
Rannveig Harpa Jónþórsdóttir og Konráð Oddgeir Jóhannsson voru efnilegustu unglingarnir í stúlkna og drengaflokkum, Unnar Freyr Bjarnason og Linda Guðmundsdóttir fengu viðurkenningu fyrir framfarir og ástundun og Þórdís Eva Harðardóttir var kosin félagi ársins í deildinni. Þann titil hlýtur sá sem hefur verið áberandi í starfinu yfir veturinn og sýnt mikinn dugnað og eljusemi í starfinu og verið öðrum fyrirmynd.
Bikararnir eru gefnir af Valborgu Árnadóttur og Garðari Garðarssyni, foreldrum Magnúsar Arnars, nema bikarinn fyrir félaga ársins sem Umf. Selfoss gaf fimleikadeildinni á 10 ára afmæli deildarinnar árið 1997.