Hulda Sigurjónsdóttir, Íþróttafélaginu Suðra, varð í 7. sæti í kúluvarpi F20 kvenna á öðrum keppnisdegi Evrópumeistaramóts fatlaðra í frjálsum íþróttum í Berlín í dag.
„Ég er mjög sátt. Ég ætlaði mér að komast í úrslit og það er það sem ég gerði. 9,40 m er allt í lagi en ég hefði náttúrulega vilja gera aðeins betur en stundum er þetta þannig að maður nær ekki alveg að hitta á það,“ sagði Hulda að keppni lokinni í viðtali á Facebooksíðu Íþróttasambands fatlaðra.
Hulda varpaði kúlunni 9,40 metra en kastsería Huldu í dag var 8,74 m – 9,18 m – 9,40 m – x – 8,89 m og 9,25 m.
Sigurvegari í kúluvarpinu var hin breska Sabrina Fortune sem kastaði lengst 13,30 m og hin pólska Ewa Durska varð önnur með 12,93 m og bronsverðlaunin fóru til Úkraínu þar sem Anastasiia Mysnyk kastaði 12,46 m.
Hér að neðan er viðtalið við Huldu.